Kína er á fleygiferð – og það er mikilvægt fyrir Íslendinga að skilja hvað þessi risavaxna og óþolinmóða þjóð ætlar sér.

Kína er stærsta þjóðríki Austur-Asíu

Austur-Asíu tilheyra ríkin Kína, Mongólía, Taiwan, Japan og Norður- og Suður-Kórea auk Hong Kong og Macau.

Samskipti Kína og nágrannalanda koma víða við sögu í bókinni Rót en við höfum einnig haft þetta landsvæði til sérstakrar umfjöllunar með pistlum á vettvangi á Instagram og Facebook.

Bókin Rót er fyrsta skrefið

Ástæðan er einföld. Við þurfum að vita meira um land sem stefnir að því innan örfárra ára að verða stærsta efnahagsveldi heims. Land sem hefur nútímavæðst hraðar en nokkur önnur þjóð í heiminum. Land sem setur mark sitt á umheiminn í æ ríkari mæli hvort sem okkur líkar betur eða verr. Svo má ekki gleyma hvað sagan skiptir miklu máli. Ekki bara mörg þúsund ára menningarsagan, heldur sagan sem er svo miklu nær okkur í tíma.

Allt frá því ég kom til Kína fyrst árið 2003 hef ég unnið markvisst að því að kynna mér land og þjóð og fundið hvað áhuginn og þörfin fyrir upplýsingar um þetta flókna, framandi en heillandi land er mikil. Mér var því alveg ljóst að ég bæri ábyrgð á að koma þessu öllu til skila á sem bestan hátt.

Til að uppfylla skyldu mína hef ég ferðast mörgum sinnum til fjarlæga austursins, elt kínverska ferðamanninn um allar trissur, bætt við mig nýrri háskólagráðu í Austur-Asíufræði, búið í Kína, rætt við mann og annan víða um heim og sökkt mér í söguna.

Að sjálfsögðu mótast efnið af áhugasviði og bakgrunni höfundar svo það er farið um víðan völl og jafnt rýnt í viðskiptahætti, nýjar atvinnugreinar, farið á listasöfn og fjölbreytt mannflóran landshorna á milli heimsótt. Það eru ekki síst kynni af heimamönnum sem hafa veitt mikilvægar upplýsingar. Það er lærdómsríkt að fylgjast með samfélagi á vettvangi bókstaflega umbyltast á örfáum árum. Undir niðri kraumar svo sagan.

Eftir langa vegferð er niðurstaðan ljóslifandi. Bókin Rót. Allt sem þú þarft að vita um Kína og meira til. 

(Úr inngangi bókarinnar Rót)